140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Þegar framtíðarstefna Bankasýslunnar er skoðuð kemur í ljós að hún fjallar um sölu á hlut ríkisins í bönkum en ekki nýtt bankakerfi. Aftur á að einkavæða viðskiptabankana án þess að takmarka áhættu skattgreiðenda af því að veita einkaaðilum ótakmarkað leyfi á peningaprentun í landinu. Endureinkavæðing bankakerfisins er ekki eina markmið ríkisstjórnarinnar. Samþykkja á frumvarp hér á þinginu sem veitir heimild til að breyta sparisjóðum í hlutafélög. Sparisjóðir voru gerðir að sjálfseignarstofnunum til að tryggja það að hagnaðurinn rynni til þess að lækka lántökukostnað og í samfélagsleg verkefni.

Enn og aftur á að leyfa einkaaðilum að nota hagnað sparisjóðanna í eiginhagsmunaskyni. Slæm reynsla er af hlutafélagavæðingu sparisjóðakerfisins og því mun önnur hlutafélagavæðing þess ekki duga til að glæða áhuga fjárfesta og viðskiptavina á sparisjóðunum. Fáir fjárfestar munu vilja reka sparisjóð á meðan stór hluti tryggra viðskiptavina sparisjóðanna er í fjötrum inni í viðskiptabönkunum og það eru heldur engin áform um að víkka út starfsemi sparisjóðanna.

Frú forseti. Það er augljóst mál að það á að breyta sparisjóðunum í hlutafélög til að auðvelda viðskiptabönkunum að taka þá yfir. Ég vara við framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar í bankamálum. Markmið hennar er endalok sparisjóðakerfisins og viðskiptabankar í einkaeigu.