140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Á undanförnum sólarhringum hefur árangurslaust verið reynt að semja við stjórnarandstöðuna um lok þessa þings, um lyktir mála og hvernig eigi að ganga frá málum áður en þing fer heim. Það hefur ekki gengið og verið fullkomlega árangurslaust og þeim fáu málum sem hér hafa fengið að fara í gegn hefur jafnvel verið hleypt í gegn nokkrum mínútum áður en þau hefðu annars eyðilagst.

Hvaða mál standa eftir, virðulegi forseti, sem þingið á ekki að fá að taka afstöðu til? Ég ætla að nefna nokkur þeirra. Hér eru til meðferðar frumvarp til laga um nauðungarsölu, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki; frumvarp til laga um breytingu á innheimtulögum, sem varðar vörslusviptingar innheimtuaðila og er neytendum í hag; frumvarp til laga um undanþágu á virðisaukaskatti, sem er samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga; frumvarp til laga um náttúruvernd og utanvegaakstur; frumvarp til laga um vinnustaðanámssjóð, sem snýr að því að mæta kostnaði fyrirtækja og stofnana af nemendahaldi auk þess að létta nemendum lífið við að ljúka námi; frumvarp til laga um gjaldeyrismál, rýmkun gjaldeyrishafta, sem hefur það að markmiði að rýmka fyrir endurfjárfestingaheimildum og frekari heimildum til gjaldeyrisviðskipta og millifærslu milli landa; frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki, sem skiptir sparisjóðina í landinu miklu máli og framtíð þeirra; frumvarp til laga um framhaldsskóla, sem á að tryggja frekar rétt nemenda og um kostnað vegna efnisgjalda og er nauðsynlegt að afgreiða á þessu þingi áður en við förum heim ef það á að taka gildi frá og með næsta skólaári; frumvarp til laga um Íbúðalánasjóð, sem minni hlutinn á þinginu heldur nú í málþófi og hefur gert dögum saman og mun ætla sér að gera.

Virðulegi forseti. Ábyrgð minni hlutans hér á þingi er mikil. Minni hlutinn hefur komið í veg fyrir að Alþingi Íslendinga fái að taka afstöðu til eðlilegra mála, (Forseti hringir.) til góðra mála, til mála sem varða dagsetningu og það er óþolandi, virðulegi forseti. Ég mun ætlast til þess að forseti setji á nýja (Forseti hringir.) dagskrá í dag þar sem þessi mál verði rædd og minni hlutinn opinberi þá fyrir alþjóð afstöðu sína til þessara góðu mála.