140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Á hefðbundnum vorþingum síðustu 10–20 ár segir mér svo hugur að að meðaltali hafi 50–70 mál fengið fullnaðarafgreiðslu á síðustu tveimur til fjórum vikunum. Það er tiltölulega eðlilegur afrakstur af starfi þingvetrar, án þess að ég sé að segja að ekki mætti skipuleggja eða dreifa þeirri vinnu betur, en nú er annað uppi. Hér hefur farið óhemjutími, 150–160 klukkustundir, í einræðu stjórnarandstöðunnar um þrjú þingmál. Það hefur engin leið verið að ná venjubundnu samkomulagi um þinglok. Við höfum lagt mikið á okkur í þeim efnum af hálfu meiri hlutans, bæði formenn stjórnarflokkanna og formenn þingflokka stjórnarflokkanna. Við höfum jafnvel gengið inn í viðræður um að leggja til hliðar tvö af þremur stærstu málum meiri hlutans á þessu vorþingi ef það mætti verða til þess að annað yrði klárað. Allt hefur komið fyrir ekki.

Við venjuleg þinglok er það oft svo að til samkomulags býður meiri hlutinn minni hlutanum að koma með mál sem hann leggur sérstaka áherslu á að afgreiða. Nú eru hlutverkaskiptin orðin slík á Alþingi, frú forseti, að fyrir nokkrum dögum bauð minni hlutinn meiri hlutanum að velja kannski eins og fimm mál sem mætti afgreiða. Þetta hef ég aldrei áður upplifað í tæplega 30 ára þingsögu minni. Það er svo komið að minni hlutinn leggur þann skilning í lýðræðis- og þingræðisleikreglur hér að hann eigi ekki bara að ráða því hvaða mál Alþingi, meiri hlutinn, getur afgreitt heldur líka innihaldi þeirra fáu mála sem minni hlutanum þóknast að leyfa afgreiðslu á. Dæmi: Veiðigjöld. Minni hlutinn hefur gert það alveg skýrt og þjóðin þarf að vita það og þingmenn allir hvernig þetta hefur gengið fyrir sig í þessum samskiptum, (Forseti hringir.) að ef veiðigjöldin yfir höfuð fáist afgreidd skuli minni hlutinn ráða upphæðinni. Þetta ætti að vera okkur öllum mikið umhugsunarefni, frú forseti, hvernig (Forseti hringir.) menn eru hér farnir að túlka grundvallarleikreglur lýðræðis og þingræðis. Alþingi er í miklum vanda.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk. Ræðutíminn er tvær mínútur undir þessum lið.)