140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Þetta er sérkennileg umræða í byrjun dags hjá stjórnarliðum þar sem þeim er annt um allt annað, virðist vera, en sannleikann. En ég ætla ekki að elta ólar við þá hv. stjórnarþingmenn sem þegar hafa talað, því að málflutningur þeirra dæmir sig sjálfur þó að síðar verði. Ég vil þó upplýsa þingmenn og koma því þá í þingtíðindi að á tveim síðustu dögum hefur stjórnarandstaðan lagt fram að minnsta kosti tvö tilboð til ríkisstjórnarinnar.

Fyrra tilboðið var þannig að við mundum fresta þingi fram í ágúst, til 13. ágúst, nota sumarið til að fara yfir fiskveiðistjórnarkerfið, gera þær athuganir og rannsóknir sem þarf að gera til þess að við getum samþykkt veiðigjöld, til þess að við getum samþykkt breytingar sem setja ekki þessa helstu atvinnugrein þjóðarinnar á vonarvöl. Nú hlær hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem ætti að hafa áhyggjur af fiskveiðiflotanum, fyrirtækjunum og fólkinu í hans kjördæmi sem vinnur í þessu, en við sögðum líka að við mundum afgreiða nokkur af helstu áherslumálum ríkisstjórnarinnar áður en við færum í leyfi til 13. ágúst. Hitt mundum við taka í ágúst. (Gripið fram í.) Við sögðum líka, og það er mikilvægt, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að starfsfólk þingsins (Gripið fram í.) fengi smásumarfrí og sumarfrí frá þeim stjórnvöldum sem hér eru. (Gripið fram í.)

Síðan var hitt tilboðið og það var að veiðigjöld yrðu ákveðin 11 milljarðar, sem er sú tala sem er í veiðigjaldafrumvarpinu. Hvað er það sem stjórnvöld eru að fara fram á? Eru þau að fara fram á einhverja peninga til að kaupa sér bland í poka einhvers staðar? Það er það sem kemur fram í veiðigjaldafrumvarpinu. Við sögðum líka að veiðigjaldsnefnd tæki til starfa og skoðaði útfærslurnar. Við sögðum líka: Metum áhrifin, fáum greinargerð um hver áhrifin yrðu. Og við sögðum að það væri vel hægt að skoða það að klára líka breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu á þeim grunni sem kominn var (Forseti hringir.) hjá þeim fjórum einstaklingum sem hér höfðu verið að vinna. Áhrif veiðigjalds og breytingar á lögunum yrðu metin. (Forseti hringir.) Þetta er það sem stjórnvöld hafa verið með á borðinu hjá sér undanfarna daga og nú skal hver og einn meta hvort þetta er ósanngjarnt.

(Forseti (ÁRJ): Enn minnir forseti á ræðutímann.)