140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að maður sem hefur tekið lán til að kaupa sér íbúð og lánið er komið upp fyrir verð íbúðarinnar geti fengið það niðurfellt þegar hann á aðrar eignir eins og ég gat um, skuldlausar eða skuldlitlar? Finnst honum það eðlilegt? Er réttlátt að maður sem til dæmis tók lán út á húsið sitt til þess að kaupa sér sumarbústað, sem er skuldlaus, fái svo lánið á íbúðarhúsnæðið fellt niður? Út á það gengur einmitt leið Landsbankans sem er í eigu ríkisstjórnarinnar. Það er dálítið undarlegt að banki sem er að mestu leyti í eigu ríkisstjórnarinnar skuli vinna gegn ríkisstjórninni.

Hv. þingmaður svarar væntanlega spurningunni um það hvort Íbúðalánasjóður sé félagslegt fyrirbæri eða á samkeppnismarkaði því að um það standi deilan og þá vil ég bæta við einni spurningu í viðbót: Nú eru margir á móti verðtryggingu, ég þekki ekki hug hv. þingmanns nákvæmlega í því máli, en ég spyr: Af hverju var ekki tekin upp sú stefna að afnema verðtryggingu? Íbúðalánasjóður er stærsti aðili sem veitir verðtryggð lán á íbúðamarkaði og sennilega bara á landinu í heild sinni. Af hverju var ekki tekin sú stefna að afnema verðtryggð lán hjá því fólki sem er svo ótrúlega mikið á móti verðtryggingu? Ég er það ekki, ég er ekki á móti verðtryggingunni, ég tel að hún hafi bjargað heimilunum gegnum hrunið. Ég hefði talið eðlilegt að þegar hv. þm. Eygló Harðardóttir kemur með sína breytingartillögu mundi hún bæta við að Íbúðalánasjóður ætti ekki lengur að lána verðtryggt, t.d. frá og með þeim tíma þegar hann tekur upp óverðtryggð lán í október.