140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það hvort Íbúðalánasjóður eigi að starfa á félagslegum grunni eða samkeppnisgrunni rakti ég það í ræðu minni og það kom fram í umræðum í gær um starfsemi Íbúðalánasjóðs að á árunum fyrir hrun var ekki mögulegt í mörgum af hinum dreifðu byggðum landsins að fá fjármögnun nema hjá Íbúðalánasjóði. Ég hlýddi líka á hv. þm. Pétur Blöndal í gær þegar hann hélt því fram að það væri ekki ósennilegt að jafnvel þó að Íbúðalánasjóðs nyti ekki við yrðu einhvern tímann einhverjir sem yrðu tilbúnir að lána inn á þessi svæði. Þetta er mjög loðið og það er gríðarlega mikilvægt þegar við erum að ræða þessi mál að við ræðum þau út frá stöðu þessara þjóðfélagshópa vegna þess að hugsunin á bak við Íbúðalánasjóð hlýtur annað veifið að vera á félagslegum grunni og er það meðal annars rökstutt með þeim rökum sem ég nefndi í ræðu minni.

Varðandi síðan athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA við starfsemi sjóðsins er það vissulega nokkuð sem við þurfum að horfa á og bregðast við og horfa til. Við megum samt aldrei gleyma þessu mikilvægi og ef menn ætla sér að bregðast við eins og hv. þingmaður hélt fram í ræðu sinni í gær, með því að selja sjóðinn eða annað því um líkt, er gríðarlega mikilvægt að áður en menn fara í einhverja slíka vegferð sé staða þeirra sem hafa getað leitað til sjóðsins tryggð. Ég hef ekki séð tillögur um það sem ganga upp, því miður.

Hvað varðar aðrar spurningar hv. þingmanns (Forseti hringir.) hygg ég að ég hafi komið inn á flestar þeirra í mínu fyrra andsvari.