140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að leggja þrjár spurningar fyrir hv. þingmann. Það getur vel verið að ég komi því ekki öllu að í fyrra andsvari en þá mun ég óska eftir því að veita andsvar öðru sinni.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um afstöðu Framsóknarflokksins til Íbúðalánasjóðs almennt og viðbragða við athugasemdum ESA sem verið er að gera með þessu frumvarpi. Að mínu viti er verið að bregðast við athugasemdum ESA án þess að rústa sjóðnum. Það er verið að koma því þannig fyrir að Íbúðalánasjóður geti í framtíðinni — að vísu þarf að endurskoða það eftir einhvern tíma — verið hluti af hinu félagslega húsnæðiskerfi hér án sífelldra athugasemda og kvartana, klögumála og jafnvel kæra frá ESA. Hver er afstaða Framsóknarflokksins til þessara þátta?

Hefur hv. þingmaður kynnt sér þá nauðsyn sem er á því að bregðast nú og ekki síðar við þeim athugasemdum EFTA að það beri að loka sjóðnum og taka af honum ríkisábyrgðina? Hefur hv. þingmaður kynnt sér hvað er í húfi ef ekki verður gengið frá þessu frumvarpi fyrir mánaðamótin og er hann sáttur við það? Ég spyr vegna þess að það vekur mér mikla furðu hvernig hv. þingmaður hefur allt í einu fengið svo óstjórnlegan áhuga á því að tefja framgöngu þessa máls. Það fór í gegnum 1. og 2. umr. á einum og hálfum tíma án þess að nokkur annar framsóknarmaður en hv. þm. Eygló Harðardóttir tæki til máls. En nú þegar er komin sex og hálf klukkustund í 3. umr., að því er mér virðist til þess eins að skemmta skrattanum, (Forseti hringir.) frú forseti. (Gripið fram í: Hver er skrattinn?) (Gripið fram í.)