140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og fram hefur komið í öðrum ræðum hv. þingmanna Framsóknarflokksins eru þeir ekki að gagnrýna í reynd það sem hér er lagt fram um breytingar á sjóðnum. Þeir hafa ekki gagnrýnt þau viðbrögð við athugasemdum ESA sem hér er lagt upp með og hv. þingmaður gerir það ekki í máli sínu.

Hv. þingmaður segir mörg dæmi þess að ESA hafi sýnt meiri hörku gagnvart Íslendingum eftir að umsóknin var send inn. Það á alla vega ekki við um þetta mál vegna þess að það hefur komið mjög skýrt fram að ESA viðurkennir markaðsbrest á íbúðalánamarkaði hér og fellst þess vegna á ýmsar tilslakanir frá fyrri kröfum sem settar hafa verið og íslensk stjórnvöld, bæði núverandi hæstv. ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir, hafa glímt við en ekki getað uppfyllt.

Nú eru góðar vonir til að þessum athugasemdum linni, en eins og ég sagði áðan er þetta tímabundið. Það á að taka þetta aftur til skoðunar og við munum líka þurfa að taka þetta til skoðunar þegar vinnu rannsóknarnefndarinnar lýkur.

Ég hef ekki séð miklar athugasemdir frá Framsóknarflokknum við málið eins og það liggur fyrir heldur þvert á móti. Þingmenn Framsóknarflokksins, ég tala nú ekki um að samþykktri tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, eru tilbúnir að samþykkja þau efnistök sem hér er farið fram með þó að þeir vilji síðan eitthvað meira og öðruvísi síðar. Er þetta ekki réttur skilningur, hv. þingmaður, á afstöðu Framsóknarflokksins til þessa máls?