140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að við gagnrýnum í raun ekki viðbrögð meiri hlutans við þessu. Við teljum skynsamlegt að tala máli sjóðsins. Við höfum talið það nauðsynlegt á liðnum árum og höfum satt best að segja undrast mjög þá afstöðu sem oft hefur komið fram og talið hægt að gera betur, standa betur saman um að sýna af hverju við teljum að Íbúðalánasjóður sé nauðsynlegur á íslenskum markaði og hversu frábrugðinn hann er öðrum lánastofnunum.

Ég fór yfir það til að mynda í ræðu minni að bankarnir líta ekki á Ísland allt sem eitt atvinnusvæði. Þá er stóra spurningin: Eiga bankarnir, hinir einkavæddu bankar, að ákveða að einhver svæði séu félagsleg svæði ef fólk velur sér þar búsetu? Ég kann ekki við slíka hugsun og þess vegna höfum við talið mjög mikilvægt að Íbúðalánasjóður sé til og sé á samkeppnismarkaði og að hann sé ekki eingöngu félagslegur sjóður. Ég get tekið undir að mikilvægt er að stjórnvöld á hverjum tíma standi saman um það að verja sjóðinn í þeirri mynd sem við teljum að sé skynsamlegust. Við framsóknarmenn höfum farið yfir það.

Ef það er rétt hjá hv. þingmanni að í þessu máli sé ESA með tímabundna eftirgjöf þá held ég að menn hljóti að geta staðið þetta af sér og varið sjóðinn. Við erum ekki að koma hingað upp til að stöðva þetta mál. Við höfum nýtt umræðuna og höfum kallað eftir því að stjórnarliðar kæmu hingað til að skapa breiðari samstöðu um Íbúðalánasjóð. Ég mundi gjarnan vilja heyra álit Samfylkingarinnar á því hvort hún standi heils hugar að baki Íbúðalánasjóði eins og hann er.

Svo höfum við bent á ákveðna galla. (Forseti hringir.) Ég get ekki farið yfir þá núna, ég kem inn á þá í seinna andsvari ef af verður.