140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari gagnrýnum við almennt séð ekki viðbrögðin þó að við séum vissulega með ákveðnar efasemdir. Við erum líka með efasemdir varðandi ákveðnar útfærslur. Ég nefndi til að mynda ákvæðið um þessa ráðherraskipuðu formenn og varaformenn sem hefur ekki fengið mikla umræðu. Ég hlustaði hér á alla 2. umr., sat í forsetastóli og heyrði aldrei á það minnst. Það er ekki fyrr en við 3. umr. sem þetta kemur upp og mér finnst það vera verulegt álitaefni hvort hér sé verið að setja pólitíska áherslu á stjórn sjóðsins og tel nauðsynlegt að ræða það.

Ég segi líka fyrir mig og veit að hv. þm. Eygló Harðardóttir, sem er fulltrúi okkar í velferðarnefnd, hefur líka haft efasemdir um hvort leigufélögin séu rétta leiðin, þ.e. eins og meiri hlutinn leggur til, og kemur með breytingartillögu til að hjálpa til þannig að sú leið verði skárri þó að við séum með miklar efasemdir um að það sé rétt leið. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt að við ræðum það hér.

Hv. þingmaður lýsti því hér yfir að Samfylkingin stæði heils hugar að baki Íbúðalánasjóði. Ég verð að segja eins og er að ég hef miklar (Gripið fram í.) efasemdir um það. Við höfum líka verið að ræða það í 3. umr. og höfum kallað eftir því að það færi þá fram umræða um það af hverju tækifærið var ekki notað til að skýra stefnuna og styrkja enn frekar, til að mynda varðandi tillögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að sjóðurinn mundi þá ganga fremstur í flokki fjármálafyrirtækja á Íslandi til að sýna hvernig á að koma fram við skuldug heimili. Það væri dálítill þungi í því og stefna ríkisstjórnar sýndi þá í reynd hvernig hún ætlaði að standa að því að koma til móts við skuldsett heimili, setti línuna sjálf í sjóði sem ríkið ætti og önnur fjármálafyrirtæki yrðu síðan skikkuð til að fylgja á eftir.