140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á fyrst varðandi tímafresti og misvísandi upplýsingar, þá held ég einmitt og talaði um það í máli mínu og hef upplýsingar og fullvissu fyrir því að ESA hagi sér miklu grimmilegar gagnvart okkur vegna aðildarviðræðnanna. Það mikilvægasta í þessu er — ekki endilega einhverjir tímafrestir, sem eru auk þess greinilega óráðnir eða óvissir — að skýr skilaboð komi fram um staðfestu, samvinnu, samstarf og samstöðu þeirra sem ætla að standa að baki Íbúðalánasjóði. Þess vegna hef ég verið að kalla eftir því að hér kæmu fram sjónarmið til að mynda þingmanna Samfylkingarinnar sem oft og tíðum hafa talað með öðrum hætti og það á reyndar líka við um þingmenn Sjálfstæðisflokksins, alla vega suma hverja.

Ákvæðið í 1. gr. um að ráðherra skipi formann og varaformann til jafnlengdar embættistíma virðist ganga lengra en maður gæti ímyndað sér. Ef hugmyndin væri sú að koma á stefnu ríkisstjórnar innan kjörtímabils þá yrði skipað til fjögurra ára. Þegar tekið er svona til orða bendir margt til þess að verið sé að skerpa hið pólitíska vald ráðherrans. Við höfum horft upp á það að dálítil lausung í það minnsta hefur verið í stjórnsýslunni að mínu mati. Ráðherrar koma og fara og hrært er í ráðuneytum og enginn veit satt best að segja hvort hann er að koma eða fara, skipt er um heiti á húsum o.s.frv. Svo virðist vera að verið sé að búa til þannig aðstæður að verði ráðherraskipti á ársfresti eða nokkurra mánaða fresti sé þeim ráðherra mögulegt að skipta út varaformanni og formanni til þess að hafa sína pólitísku ábyrgðarmenn (Forseti hringir.) yfir sjóðnum. Það hlýtur að þýða aukið pólitískt vægi.