140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér kristallast munur — og reyndar í mörgum málum — á stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hv. þingmaður fór yfir þó nokkrar eftirlitsstofnanir sem hafa bent á ákveðna galla. Þær eftirlitsstofnanir eru að okkar mati fyrst og fremst að fjalla um málin út frá einhverjum fjármálamarkaði þar sem hin almenna samkeppni sé fullkomin, þjónusta bankanna sé einsleit, en ég hef lagt á það áherslu í máli mínu að íslensku bankarnir líta ekki á Ísland sem eitt markaðssvæði. Þeir skera hreinlega ákveðinn landshluta frá, eða ekki landshluta, satt best að segja stærsta hlutann af landsbyggðinni og segja: Það er annars konar markaðssvæði en höfuðborgarsvæðið og kannski Akureyri og eitthvað slíkt.

Það kom meira að segja í ljós á bólutímanum þegar menn dældu peningum hvað hraðast að verulegur munur var á því hvað þeir vildu gera sums staðar á landsbyggðinni, til að mynda með hærri vöxtum og ýmsu öðru alveg óháð því, eins og þingmaðurinn nefndi, hvort um var að ræða lágar tekjur — vissulega eru lægri tekjur víða á landsbyggðinni en það er þó ekki algilt — eða félagslegar aðstæður. Það var hreinlega út frá búsetunni sjálfri sem menn í bönkunum tóku þá ákvörðun að vilja ekki lána á sömu kjörum eða vilja alls ekki lána. Og þess vegna höfum við talið nauðsynlegt, við framsóknarmenn, að Íbúðalánasjóður sé til og þess vegna er nauðsynlegt að við komum fram með þau rök til að útskýra fyrir þessum eftirlitsstofnunum af hverju þetta þarf að vera með þessum hætti og útskýra íslenskar aðstæður. Og þó svo að það hafi vissulega verið rétt sem hv. þingmaður benti á, að þetta hafi verið tekið upp í rannsóknarskýrslu Alþingis, þá var það tekið upp úr þessum sömu eftirlitsskýrslum erlendra aðila. Það verður áhugavert að fá niðurstöðu úr þeirri rannsókn sem er á Íbúðalánasjóði. Ég hélt að sú trygging sem við framsóknarmenn reyndum að fá inn í hana yrði heildstæðari, víðsýnni (Forseti hringir.) og tæki á fleiri þáttum en Samfylkingin hafði lagt til í forgangsröðun sinni þegar fyrsta málið sem átti að rannsaka eftir bankahrunið var Íbúðalánasjóður, sem við framsóknarmenn teljum að hafi ekki (Forseti hringir.) verið fíllinn í stofunni.