140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:09]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og segja í upphafi máls míns að það er alveg óþarfi hjá hv. þm. Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur að taka til sín orð sem ég beindi til hv. þingmanna Framsóknarflokksins sem höfðu full tækifæri til þess að taka þátt í umræðunni við 1. og 2. umr. þessa máls en kusu að gera það ekki.

Það kveður svo sannarlega við annan tón gagnvart Íbúðalánasjóði frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins utan af landsbyggðinni en ýmissa þingmanna flokksins á höfuðborgarsvæðinu og orð hv. þingmanns eru því til vitnis. Við hlýddum á það hér í gær eða í fyrradag að hv. þm. Pétur Blöndal upplýsti þingheim um það að hann væri mjög áfram um að leggja Íbúðalánasjóð bara niður og setja þetta allt í hendur bankanna. En eins og við höfum rætt hér í morgun er ég sammála því sjónarmiði að það væri glapræði gagnvart landsbyggðinni og gagnvart stöðu byggða sem eru veikar fyrir með laskað sparisjóðakerfi og njóta ekki stuðnings frá bankakerfinu.

Ég held að hv. þingmaður hafi hins vegar misskilið eitthvað sem ég sagði varðandi skipun fulltrúa í stjórn. Ég vil aðeins taka fram að ég styð eindregið að ráðherraskipaðir formaður og varaformaður stjórnar skuli skipaðir til jafnlengdar kjörtímabils ráðherra. Það eru gild rök fyrir því eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu. Það þykir mikilvægt að traust ríki milli ráðherra og stjórnar sjóðsins í ljósi hlutverks stjórnarinnar samkvæmt 4. gr., af því að henni er ætlað að vera sérstaklega ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðherra. Í greinargerðinni kemur fram að það hljóti að vera nauðsynlegt að stefna Íbúðalánasjóðs á hverjum tíma sé í samræmi við efnahagsleg markmið hlutaðeigandi stjórnvalda og í samræmi við peningastefnu Seðlabankans. En þetta á aðeins við um þessa tvo stjórnarmenn, (Forseti hringir.) hinir eru með óbreytta skipun til fjögurra ára og þannig mun skapast festa í störfum stjórnarinnar.