140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Ég fór aðeins út af laginu, frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur. Þetta er líklega misskilningur hjá mér, mér fannst hv. þingmaður segja varðandi skipun stjórnarmanna að ég hefði tekið undir að það væri eitthvað athugavert við að stjórnarformaður og varaformaður stjórnar væru skipaðir sérstaklega af ráðherra til jafnlengdar hans tíma.

Ég kom ekki inn á þetta í andsvörum mínum í morgun og þess vegna notaði ég tækifærið til þess að koma því á framfæri áðan. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að það ríki trúnaður og pólitísk samfella í starfi stjórnar Íbúðalánasjóðs á hverjum tíma og starfi stjórnvalda, ekki aðeins stefnumörkun ráðherra gagnvart húsnæðiskerfinu í það heila heldur ekki síður vegna þess sem segir í greinargerð með frumvarpinu að Íbúðalánasjóður er svo snar þáttur og svo stór hluti af efnahagskerfinu og húsnæðiskerfinu okkar að rekstur hans og stefna á hverjum tíma þarf að vera í samræmi við efnahagsstefnu stjórnvalda, efnahagsstjórnina á hverjum tíma og einnig peningastefnuna.

Ég vil leggja á þetta áherslu vegna þess að það hefur auðvitað borið við þegar stjórnin er öll skipuð til fjögurra ára í senn og það er skipt um stjórn og stjórnarstefnu í landinu, peningamálastefnu, efnahagsmálastefnu, að þá dugir ekki að sjóðurinn keyri í aðra átt. Ég vildi nota tækifærið og leggja áherslu á það.