140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Úr því að hv. þingmaður pressar mig með svar varðandi tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur get ég sagt að ég hef svo sem séð margt vitlausara en þetta hér í þinginu. Ég ætla mér bara aðeins lengri tíma til að fara í gegnum þetta áður en ég fer að lýsa yfir stuðningi eða andstöðu við málið. En mér sýnist í sjálfu sér, svona við fyrstu sýn, að hér sé tillaga sem geti verið til bóta en ég ætla ekkert að tjá mig um það fyrr en ég hef skoðað það ofan í kjölinn. Það mun síðan ráða mínu atkvæði, niðurstaðan í því öllu saman.

Hvað varðar afstöðu mína til Íbúðalánasjóðs almennt þá lýsti ég því hér áður í ræðu minni hvernig ég tel að það verði að reyna að ná betri tengingu á milli Íbúðalánasjóðs annars vegar og hins vegar stefnunnar í ríkisfjármálum og þó sérstaklega í peningamálastjórninni. Ég held að það hafi verið til vandræða hvernig þróunin var hér á árunum fyrir hrun bankakerfisins, það var alls ekki og þvert á móti samfella í þessari stefnumótun. Það er auðvitað eitt sem ég tel að þurfi að breyta. Ég er þeirrar skoðunar að í samfélagi okkar þurfi að vera til leið til að framfylgja þeirri stefnu sem ég lýsti hér áðan, þ.e. að sem flestum sé gert mögulegt að eignast sitt eigið húsnæði. Ég tel að það skipti bara miklu máli fyrir gerð þjóðfélagsins og þess vegna hafi Íbúðalánasjóður hlutverk.

Nú stöndum við frammi fyrir því að Eftirlitsstofnunin hefur sagt: Þið verðið að skerpa á félagslega þættinum, og það er sjálfsagt að gera það og það er verið að gera það með þessu frumvarpi. Ég er ekki að segja að það sé komið upp eitthvert lokafyrirkomulag á Íbúðalánasjóð enda er sagt í frumvarpinu að nauðsynlegt sé að menn séu tilbúnir til að halda áfram að breyta því. Það er þessi þáttur málsins sem ég legg áherslu á, að Íbúðalánasjóður í það minnsta við núverandi aðstæður og í fyrirsjáanlegri framtíð hefur (Forseti hringir.) hlutverki að gegna til að framfylgja þessari stefnu.