140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:54]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það dylst engum að í Reykjavík býr fátækt fólk. Það er ekki svo að hér séu allir í færum til að eignast sitt húsnæði með þeim hætti að geta bara tekið lán í banka. Og enn og aftur hefur það verið stefna Sjálfstæðisflokksins að reyna að koma málum þannig fyrir að sem flestir geti eignast sitt húsnæði. Það hefur enn og aftur heilmikið að gera með þjóðfélagsgerðina, það myndast meiri festa í samfélögum þar sem það er. Ekki er þar með sagt að það henti öllum eða að allir eigi að vera í eigin húsnæði, en í það minnsta viljum við koma málum þannig fyrir að sem flestir geti gert það.

Ég hef engar áhyggjur af þeim sem eiga mikla peninga og nóga peninga. Það er tilgangurinn með Íbúðalánasjóði að hjálpa þeim sem þurfa á slíkri aðstoð að halda og við höfum skilgreint þetta nokkuð vítt. Við höfum ekki farið í það að skilgreina hlutverk Íbúðalánasjóðs mjög þröngt heldur frekar vítt á grundvelli þess sem ég er að segja hér varðandi þá stefnumótun að vilja að sem flestir geti fjárfest og keypt sér sitt íbúðarhúsnæði. Það svarar þá um leið afstöðu minni til þessa sjóðs.

Hvað varðar aftur á móti þetta frumvarp þá benti ég á það að það er nokkuð langt um liðið frá því að þessar athugasemdir komu, það er að verða komið heilt ár. Ég get vel skilið marga félaga mína sem hafa gert athugasemd við það að jafnvel hefði verið hægt að gera meiri breytingar og til lengri tíma á starfsemi sjóðsins. En núna erum við bara stödd þar sem við erum stödd, ef svo má að orði komast. Þetta er frumvarpið sem liggur fyrir, þetta er tímaramminn sem við horfum á. Ég held að það verði þá bara að vera skilningur á því að þetta er ákveðið skref sem verið er að stíga. Þeirri vinnu sem þarf að vinna er ekki lokið en ég held að menn hefðu getað nýtt tímann miklu betur. Ég held að menn hefðu kannski getað komið til þings með veigameiri breytingar og til lengri tíma.