140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðismál. Margt áhugavert hefur komið fram í umræðunni og margt hefur svo sem skýrst. Ljóst er að að meginstofni til er töluverður munur á milli sjónarmiða einstakra stjórnmálaflokka á Alþingi þó svo að líka megi sjá samhljóm á milli einstakra þingmanna þvert á flokka.

Við munum það mörg að í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var það eitt af helstu verkefnum Framsóknarflokksins í þeim ríkisstjórnum að verja húsnæðislánakerfið, að verja Íbúðalánasjóð, og kannski eðlilega því að þá höfðu sjálfstæðismenn og reyndar Samfylkingin líka á sínum tíma áhuga á að breyta Íbúðalánasjóði og jafnvel koma honum af markaði. Það er sjálfsagt í samræmi við þá stefnu sem þeir flokkar hafa markað sér en það er ekki það sem við höfum viljað og viljum ekki.

Ég held að þessi umræða sé mjög góð að því leytinu til að við sjáum að töluverður vilji er til þess að standa áfram vörð um sjóðinn. Það eru hins vegar greinilega skiptar skoðanir um hvernig það eigi að verkast, hvernig það á að vera, hvort að beina eigi honum eingöngu út í það að vera einhvers konar félagslegur sjóður eða hvort hann á að hafa víðtækara hlutverk. Að mínu viti þarf hlutverkið að vera víðtækara þó svo að að sjálfsögðu verði að passa það að ríkisrekinn sjóður skekki ekki heilbrigðan húsnæðislánamarkað. Markaðurinn er hins vegar ekki fullkomlega heilbrigður meðan þeir sem eru á hinum frjálsa markaði, ef ég má orða það þannig, lánastofnanir, lána eingöngu á ákveðið landshorn eða ákveðið svæði að mestu leyti — það er vitanlega ekki alfarið þannig — en í það minnsta njóta ákveðin landsvæði ekki alveg sömu fyrirgreiðslu. Þar þarf því eitthvert apparat að koma inn í, opinbert í þessu tilviki, eða annað form, sé hægt að búa það þannig til að það þjóni tilgangi sínum.

Íbúðalánasjóður er að sjálfsögðu í þeirri stöðu í dag að hafa eins og aðrar stofnanir þurft að taka á sig töluvert af þeim skakkaföllum sem urðu hér eftir bankahrunið. Samkvæmt gögnum sem eru hér í fylgiskjölum átti sjóðurinn í febrúarmánuði 1.751 fasteign, sem var að sjálfsögðu fært inn í bókhald sjóðsins þar sem um er að ræða 22,5 milljarða miðað við þau gögn. Af þessum rúmlega 1.700 eignum eru eingöngu 700 í útleigu. Því er ljóst að vandinn er töluverður. Eignir sjóðsins eru vissulega úti um allt land, á víð og dreif um landið, og undirstrikar það þá enn frekar hversu mikið hlutverk sjóðurinn hefur haft í þessu tilviki. Ég hef hins vegar skilning á því að nauðsynlegt sé að breyta á einhvern hátt hlutverki sjóðsins eða víkka það út með því að búa til leigufélag sem á að gera, en ég legg mikla áherslu á að öll sú umgjörð verði skýr og vel aðgreind frá öðrum rekstri sjóðsins og að þess verði gætt að þetta félag skekki ekki samkeppnisstöðu við önnur félög sem eru á þessum markaði, leigumarkaðnum. Í fyrsta lagi á það vitanlega ekki að vera hlutverk ríkisins að skekkja markaðinn og í öðru lagi kunna að vera þar félög sem sjóðurinn í þessu tilviki þarf að gæta hagsmuna sinna í, þ.e. að eignasafn þeirra rýrni ekki með einhverjum hætti eða þau félög fari á hausinn út af aðgerðum sjóðsins. Þetta þarf allt að reyna að teikna skynsamlega upp og ég vona að það takist.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að mér finnst eins og verið sé að færa sjóðinn meira út í þetta félagslega hlutverk hans frá hinu. Ég held að auka þurfi hlutverkið og reyna eftir því sem okkur er leyft, ég verð bara að segja það alveg eins og er, að veita áfram lán í einhvers konar samkeppni við aðra á þeim svæðum (Forseti hringir.) sem einhver markaðsbrestur er á.