140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru um tíma saman í ríkisstjórn og gerðu marga góða hluti til að byggja upp velferðarkerfið og annað. Það er hins vegar rétt að rifja líka upp að árið 1999 var Íbúðalánasjóður stofnaður af þáverandi félagsmálaráðherra Páli Péturssyni, eða undir hans stjórn. Það var vegna þess að það kerfi sem þá var við lýði var nánast orðið gjaldþrota. Það var kerfið sem Jóhanna Sigurðardóttir barðist fyrir einna helst, það var komið algjörlega í þrot.

Því verður að halda til haga að sú umræða sem sjálfstæðismenn hafa gjarnan haldið á lofti um að markaðurinn eigi að geta sinnt þessum húsnæðislánum — það gengur einfaldlega ekki upp þegar fákeppni er á þessum markaði eins og er í raun á Íslandi í dag. Þar sem eru kannski tvær, þrjár fjármálastofnanir sem lána af einhverri alvöru til húsnæðiskaupa og lána bara á lítið svæði á landinu getur ekki kallast þróaður markaður. Það getur vel verið að hann verði það einhvern tíma en hann er ekki til staðar í dag og hefur ekki verið til. Þess vegna höfum við þurft að hafa Íbúðalánasjóð sem lánar til fasteignakaupa víða um land.

Það er misskilningur að mínu viti að Íbúðalánasjóður hafi á einhvern hátt skekkt markaðinn. Gleymum því ekki að Íbúðalánasjóður var með hámark á sínum lánum. Þó svo að hægt væri að fá 90% lán var ekki hægt að fá það nema upp að ákveðnu verðmæti eignar eða ákveðnu hlutfalli. Á meðan lánuðu bankarnir allt upp í 110% og virtist litlu skipta hversu verðmæt eignin í rauninni var eða hversu hátt lánið gat verið.

Ég er því enn á því að það hafi verið rétt hjá framsóknarmönnum á sínum tíma að taka slaginn við sjálfstæðismenn í ríkisstjórn um að verja áfram Íbúðalánasjóð, að hann yrði ekki lagður niður eða honum breytt í eitthvert markaðsbatterí sem þyrfti að fylgja þeim lögmálum. Ég hygg reyndar að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að sjá að það er mjög mikilvægt að hafa þennan sjóð í dag þegar ríkisstjórn eins og þessi er við völd, sem er meira að segja líka að drepa hinn frjálsa markað.