140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er freistandi að stríða hv. þingmanni á tengslum Sjálfstæðisflokksins við heildsalastéttina í gamla daga en það er kannski ekki alveg sanngjarnt núna.

Hugmyndin um heildsölubanka er að sjálfsögðu — þarna veifar einn heildsalinn — ekki ný af nálinni. Við skulum orða það svo að ef það ætti að vera þannig yrðu þær lánastofnanir sem fengju fyrirgreiðslu frá þessum heildsölubanka að hafa skyldu til að lána á þau svæði sem Íbúðalánasjóður hefur lánað fram að þessu. Hitt er að hið félagslega hlutverk sjóðsins má ekki líða fyrir það eða hverfa. Sjóðurinn þarf að hafa það hlutverk áfram.

Ef hægt er að teikna þetta upp skynsamlega útiloka ég að sjálfsögðu ekki neitt. En þau hlutverk sem Íbúðalánasjóður hefur haft og á að hafa þurfa að vera skýr.