140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því að hér kemur þing saman á laugardegi um miðjan júní og enn ríkir fullkomin óvissa um það hversu lengi fundur eigi að standa vegna þess að ekki hefur verið fundað með þingflokksformönnum. Enn ríkir algjör óvissa um hvort til stendur að halda þingfundum áfram í næstu viku sem hefst 17. júní. Á hinn bóginn er það alkunna hér í salnum að komið hefur til álita að kalla þing aftur saman í sumar. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé lengur hægt að bíða eftir því að fá skýr svör um fyrirætlanir þeirra sem ráða för á þinginu í þessum efnum. Þess vegna er slæmt að þingfundur skuli hefjast hér og nú í algjörri óvissu um framhald dagsins, vikunnar eða sumarsins.