140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, það er laugardagur og við erum hér um miðjan júní. Það er sömuleiðis rétt sem kom fram hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, það stóð til að ljúka þingstörfum í þessari viku en það hefur ekki tekist. Til að ljúka þingstörfum þurfa þingmenn að ná samkomulagi um þingmál og hvernig þingi á að ljúka. Þar hafa forustumenn stjórnarandstöðunnar ekki risið undir þeirri ábyrgð sem þeim var falin með því að taka sæti á þingi og brugðist skyldum sínum sem þingmenn. Þess vegna erum við hér á laugardegi um miðjan júní án þess að vera viss um hvenær þingi muni ljúka.