140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:10]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það er vilji af hálfu stjórnarflokkanna til að ganga til samninga um þinglok og lyktir einstakra þingmála. Það hefur ekki staðið á okkur í því að setjast að samningaborði og ná sátt og málamiðlun. Það voru hins vegar vonbrigði í gær að þegar menn töldu að komin væru drög að samkomulagi, einhvers konar rammi til að vinna innan, sprakk það í loft upp að loknum þingflokksfundum og menn höfðu þá greinilega ekki umboð til að vinna innan þess ramma sem ákveðinn hafði verið. Það voru vonbrigði. Menn vildu ekki eða höfðu ekki vald til að ganga frá samningi og hleyptu þar með samningaviðræðunum upp í loft á nýjan leik. Ég ítreka að það er í raun vilji af hálfu stjórnarflokkanna til að ganga frá málum hér í sátt og samlyndi með málamiðlunum en þá er mikilvægt að það liggi skýrt fyrir að menn hafi vald til að ganga frá samningi. (Forseti hringir.) Það vald var ekki á hreinu í gær.