140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað öllum ljóst og hefur verið það síðustu daga að þingið er í talsverðu uppnámi. Hér erum við að fjalla um gríðarlega hagsmuni samfélagsins, það er eðli löggjafarsamkomunnar. Þegar við setjum lög hafa þau gríðarleg áhrif á ýmsa þætti í samfélaginu. Það er skylda okkar að hafa allar upplýsingar á borði og geta vandað okkur við verkið þannig að ekki komi eitthvað óvænt upp á. Við höfum lagt okkur fram við það og þrátt fyrir augljósan samningsvilja á öllum sviðum, að ég held, hjá öllum flokkum er það forkastanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli vera tilbúnir til viðræðna fyrst þegar þingið er komið tíu daga fram yfir starfsáætlun.

Sá rammi sem hv. þingflokksformaður Samfylkingar ræddi áðan var (Forseti hringir.) augljóslega ekki nægilega skýr af hendi stjórnarflokkanna til að hægt væri að ganga frá málinu. Við framsóknarmenn lögðum fram tillögu í gærkvöldi sem byggð var á þeim viðtölum og samræðum sem við höfum átt á þingi en því miður (Forseti hringir.) virðist ekki, eins og hv. þingflokksformaður sagði, sem menn hafi haft umboð til að klára málin af hálfu stjórnarflokkanna.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á ræðutímann sem er tvær mínútur.)