140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:41]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans um þá tillögu sem hér liggur frammi. Ég vildi bara taka það fram að 16. gr. sem og aðrar greinar og einmitt sá þáttur sem hv. þingmaður er að ræða um, skráning fornminja á vettvangi við gerð aðalskipulags og svæðisskipulags, var mikið rædd í nefndinni. Þetta var rætt við fornleifafræðinga, þetta var rætt við aðra gesti sem komu m.a. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og frá ráðuneytinu, og fjallað um hvernig ætti að nálgast þetta verkefni.

Það var ljóst að nefndarmenn töldu að það væri skýrt og skorinort sagt að skráning yrði að fara fram þegar ákveðið væri að fara í landnýtingu. Svæðaskipulag og aðalskipulag eru stefnumótun um hugsanlega nýtingu lands en þegar farið er í landnýtingaráformin sjálf og þegar kemur að deiliskipulagi, eins og kom fram í ræðu minni og ég held að hafi komið fram hjá hv. þingmanni líka, er algerlega skýrt að skráning fornminja á vettvangi verður að fara fram. Það getur ekkert sveitarfélag komist hjá því að vinna þannig. Það er hins vegar alveg ljóst að í röðum fornleifafræðinga annars vegar og síðan skipulagsyfirvalda hins vegar eru menn ekki sammála um hvort greina beri og skrá á vettvangi við gerð aðalskipulags allar fornminjar eins og krafan er um á deiliskipulagi. Um það hefur ekki verið samkomulag. Að þessu sinni er ákveðið af hálfu nefndarinnar að fara þá leið að það sé greinargóð lýsing (Forseti hringir.) á minjum áður en gengið er frá aðalskipulagi en skilyrt að rannsókn á vettvangi fari fram við deiliskipulag.