140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:46]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, það má segja að þarna séu hagsmunir í húfi vegna þess, eins og hv. þingmaður kom inn á, það er afar kostnaðarsamt að gera vettvangsrannsókn við gerð aðalskipulags þegar stundum liggja undir fleiri hundruð hektarar, það er nokkuð ljóst.

En það eru líka hagsmunir fornleifafræðinga, og ég ætla ekki að gera lítið úr þeim, að vettvangsskráning fari fram um leið og aðalskipulag og svæðaskipulag. En ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, að þessi 16. gr. er líka ákveðin málamiðlun á milli sjónarmiða. Það verður bara að koma í ljós þegar við förum í atkvæðagreiðslu hvaða sjónarmið verða ofan á. Ég tel að við séum að vernda (Forseti hringir.) það sem okkur ber að vernda, sem eru menningarminjar og það sé gert með því að skikka sveitarfélögin og skipulagsyfirvöld (Forseti hringir.) til að vinna að málum við deiliskipulag.