140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað rétt að hafa alltaf í huga þegar þingmenn og yfirvöld skoða málin að þátttakendur geta sjálfir haft ýmsa hagsmuni í þeim. Það hefur komið upp á liðnum vikum, t.d. geta embættismenn haft hagsmuni af því að ekki sé felld niður flugpunktaskráning, úr því að hv. þm. Pétur Blöndal situr í salnum. Það er ákveðinn þáttur í því máli. En mér finnst kannski að beinir hagsmunir fornleifafræðinga af vinnu við málið eða samningum um skráninguna eigi að vera aukaatriði í þessu efni og við eigum ekki að blína á það eða lyfta því upp. Það kann vel að vera að svo sé en ég held að a.m.k. flestir fornleifafræðingar hefji sig yfir slíka skammtímahagsmuni og horfi á hagsmuni þjóðarinnar allrar og að auki hagsmuni sveitarfélaganna, framkvæmdaaðilanna og ferðaþjónustunnar af því að gengið sé frá skráningu í þeim mæli sem fjárhagslegt bolmagn leyfir.