140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa breytingartillögu vegna þess að nauðsynlegt er að umræða komi fram um þetta. Ég hef áhyggjur af þeim kostnaði sem af þessu mun skapast en ég veit að hv. þingmaður tekur sérstaklega fram leið sem heimilar sveitarfélögum að dreifa kostnaði við skráninguna á lengri tíma en yfirleitt er gert og er þar með fámenn sveitarfélög í huga. En engu að síður tel ég að þegar við horfum á ýmis sveitarfélög, til dæmis Skaftárhrepp, sem við hv. þingmaður höfum rætt saman um áður í þessum ræðustól, sem er gríðarlega landmikið sveitarfélag, þá er mjög mikið eftir þar varðandi skráningar. Þar kæmi fram kostnaður sem yrði sveitarfélaginu mjög íþyngjandi þrátt fyrir að sveitarfélaginu yrði heimilað að dreifa því á ákveðinn tíma.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að frekari skráningar vantar og við þurfum að passa upp á að við glötum ekki öllum okkar upplýsingum um fortíðina með því að sinna ekki rannsóknum sem þessum en við þurfum auðvitað að forgangsraða. Í ríkissjóði eru ekki til fjármunir til að fara í þetta af þeim krafti sem þarf, því miður, og ekki heldur hjá sveitarfélögunum. En mér finnst gríðarlega mikilvægt að við ræðum þetta.

Ef við tökum Suðurland sérstaklega þá hefur það sérstaklega orðið eftir vegna þess að minjavörður kom ekki þar til fyrr en fyrir tveim árum eftir mikla baráttu heimamanna fyrir að fá minjavörð. Við þekkjum það að gríðarlega miklar framkvæmdir hafa orðið á Suðurlandi á undanförnum árum en skráning minja hefur því miður farið fyrir ofan garð og neðan. Ég er því sammála því að við þurfum að hafa skýrar reglur en ég hef áhyggjur af fjármagninu.

Deilir hv. þingmaður þeim áhyggjum mínum og hvernig telur hann að sveitarfélögin muni komast í gegnum það verði þessi breytingartillaga að veruleika?