140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er dálítið skemmtilegt að ég kem vart upp í andsvari við hv. þingmann um ýmis mál öðruvísi en að við ræðum um Skaftárhrepp, hann kemur því víða við í okkar daglega starfi í þinginu greinilega.

Ég vildi óska þess, frú forseti, að ég gæti stutt tillöguna vegna þess að ég er sammála því að við þurfum að gera átak í þessum málum. En ég er hins vegar ekki á því að rétt sé að lögfesta ákvæði sem maður sér fyrir fram að verður ekki hægt að framfylgja. Þó að orðalagið sé óljóst í 16. gr. eins og hún liggur nú fyrir eftir vinnu nefndarinnar þá sé það ágætisbyrjun sem ég tel rétt að gangi fram. En koma tímar, koma ráð og af því að við erum rík þjóð af auðlindum o.fl. munum við vonandi í framtíðinni ná betur utan um hlutina og hér er tryggt að þegar deiliskipulag verður gert þá fari þess mál strax af stað.