140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég efast ekki um að sú breytingartillaga sem hv. þingmaður hefur gert grein fyrir er flutt af góðum hug. Ég sé hins vegar ekki hvernig hún gengur upp því að þetta er þríhliða samningur sem verður að gera ef ég hef skilið þetta rétt. Það eru fornleifafræðingar sem annast um þessa skráningu að beiðni verkkaupa, sem eru sveitarfélögin. Eins og sagt er í greinargerðinni með tillögunni, að Minjastofnun eigi að hafa heimild til að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld um að dreifa kostnaði við skráninguna, þá átta ég mig ekki alveg á því með hvaða hætti Minjastofnun á að gera það og undir hvaða skilmálum. Það þarf þá að semja við fornleifafræðinga og sveitarfélagið um einhverja dreifingu á þeim kostnaði sem verður til og ég get ekki séð að Minjastofnun hafi neinar heimildir til að gera slíkt.

Það liggur hins vegar alveg í orðum hv. þingmanns og þeirra sem hafa rætt þetta mál að viðurkenning felst í því að þarna liggi gríðarlega mikill kostnaður fyrir en mjög æskilegt væri við umræðu um svona tillögu að eitthvert mat væri þá til grundvallar því um hvaða fjárhagslega þætti er að ræða í þeim efnum. Fróðlegt væri að vita hvort eitthvert slíkt mat lægi fyrir eða hefði komið fram í vinnu nefndarinnar hvort um það væri að ræða.

Ég held að þetta sé einnig mjög breytilegt eftir sveitarfélögum hvernig og hvað þar undir heyrir. Ég heyrði það á hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur áðan að Fljótsdalshérað væri búið að vinna sitt aðalskipulag og þar væri gríðarlega mikið efni sem ætti eftir að vinna almennilega niður. Hv. þingmaður taldi að aðalskipulagsgerð hefði ekki verið lokið ef þetta ákvæði hefði verið komið til eins og það liggur fyrir. Ég vildi gjarnan heyra nánari skýringu frá hv. þingmanni á því með hvaða hætti þetta ætti að ganga upp.