140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er ekki vanþörf á að lesa í gegn öll frumvörp sem hér eru afgreidd með tilliti til áhrifa þeirra á einstaklinga og fyrirtæki, líka sveitarfélögin en minna hefur verið rætt um áhrif frumvarpa á einstaklinga og fyrirtæki. Öll viljum við viðhalda menningarminjum og menn fordæma menningarbyltinguna í Kína og fleira þar sem menningarminjum var kerfisbundið eytt. Við viljum hafa söguna á hreinu en oft kostar þetta skerðingu á eignarrétti einstaklinga. Mér finnst að stefnan eigi að vera sú í gegnum allt að það sé hagur samfélagsins að varðveita menningarminjar en að einstaklingar eigi ekki að borga það.

Ég hef svo sem lagt það til áður, herra forseti, að í svona frumvörpum yrðu ekki bara könnuð áhrif þeirra á ríkissjóð heldur ekki síður á sveitarfélög sem er mjög mikilvægt og á atvinnulíf og fyrirtæki sem og á einstaklinga og fjölskyldur. Ég held að það sé mjög brýnt að menn fari að skoða hvaða áhrif ákveðin frumvörp geti haft á einstaklinga.

Í 14. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Minjastofnun Íslands er heimilt að taka gjald fyrir leyfisveitingar og ýmsa ólögbundna þjónustu, þar á meðal fyrir ráðgjöf, veitta sérfræðiþjónustu, afritun gagna og námskeiðahald.

Stofnunin birtir gjaldskrá um gjaldtöku samkvæmt þessari grein.“

Það er ekkert hámark þarna og stundum er nauðsynlegt að fá leyfi. Rannsóknir geta verið tengdar leyfunum um hvort heimilt sé að byggja á ákveðnum stað eða eitthvað svoleiðis. Það þarf að kanna hvort þar séu einhverjar fornminjar eða eitthvað slíkt og það er ekkert hámark. Stofnunin birtir þetta sjálf og ekki einu sinni ráðherra þarf að samþykkja það. Ég hefði viljað að þarna væri borgarinn pínulítið betur varinn ef hann ætlaði að gera einhverjar breytingar á húsnæði sínu eða eignum, t.d. að byggja bílskúr. Ég hefði talið að það ætti að skoða þetta.

Síðan stendur í 28. gr.:

„Framkvæmdaraðili greiðir kostnað við þær rannsóknir á fornleifum sem Minjastofnun Íslands ákveður að séu nauðsynlegar vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Við allar umfangsmiklar framkvæmdir skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum og vettvangsskráningu fornleifa.“

Þetta er galopinn tékki. Einhver maður ætlar kannski að byggja bílskúr við húsið sitt, veit ekkert af því að þarna eru fornminjar, rekst á þær og getur bara orðið fyrir milljónaútgjöldum. Það er ekkert hámark. Það er hægt að rannsaka þetta í mörg ár og mér sýnist hann ekki einu sinni geta hætt við framkvæmdina. Hann getur óvart farið að byggja bílskúr og fundið þar beinagrind og þá bara er maðurinn orðinn gjaldþrota. Mér finnst að þarna þurfi að verja borgarann betur fyrir ríkisvaldinu og að sú stefna sé höfð í heiðri og mætti gjarnan vera markviss tilgangur laganna að ríkið greiði kostnað af svona minjum.

Í 38. gr. er allt í einu talað um skyndirannsóknir. Þá skal kostnaðurinn greiddur af stofnuninni. Þegar menn finna beinagrind í garðinum þar sem þeir eru að grafa fyrir bílskúr verða þeir að vona að fram fari skyndirannsókn en ekki venjuleg rannsókn. Þetta er líka galopið.

Svo er merkilegt ákvæði í 43. gr. sem ég skil ekki að hafi ekki verið vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Í 4. mgr. hennar stendur:

„Styrkir til einstaklinga úr húsafriðunarsjóði mynda ekki stofn til tekjuskatts.“

Það eru tekjuskattslög, herra forseti, í þessum lögum. Einstaklingur sem langar ekki að borga tekjuskatt eitt árið sækir um styrk til að gera við húsið sitt, er að vinna við það allt árið og það árið er sá vinur skattfrjáls. Það gengur ekki, herra forseti, að þetta skuli ekki vera skoðað í efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta er 3. umr. um málið og ég vil ekkert vera að tefja hana. Ég veit að þetta er mjög viðkvæmt, menn eru sakaðir um málþóf og annað slíkt, en mér finnst ástæða til að þetta verði skoðað örlítið eða þetta ákvæði hreinlega tekið út. Mér finnst að menn eigi að borga skatta af styrkjum eins og öðrum tekjum sem þeir hafa ef það eru sannanlega tekjur. Væntanlega hafa þeir gjöld á móti, efniskostnað og annað slíkt, þannig að það koma nettó út einhver laun og þau eiga að sjálfsögðu að vera skattskyld.