140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég tel að við hv. þingmaður séum sammála um þessa þætti. Ég hefði viljað ganga frá þessum hlutum nú í upphafi þess sem við setjum ný lög um þessa nýju stofnun, Minjastofnun Íslands, en ekki búast til þess að þurfa að breyta þeim fljótlega aftur.

Ég vek athygli á 55. gr. þar sem er ákvæði um að Minjastofnun geti lagt allt að 300 þús. kr. dagsekt fyrir hvern byrjaðan dag á framkvæmdaraðila sem vanrækir m.a. að skila inn gripum samkvæmt 1. mgr. 40. gr. og að skila inn gögnum og birta skýrslu um niðurstöður samkvæmt 2. mgr.

Það kemur auðvitað alltaf upp spurningin um jafnræði þegar farið er að veita tímafresti og engin viðmið er að finna í lögunum. Segjum að það væru fimm ár, ég er ekki að segja að eitt ár hafi verið hið eina rétta en ég er að gera athugasemdir við að fellt hafi verið algjörlega út úr lögunum eitthvert viðmið fyrir Minjastofnun til að fara eftir. Ég tel þetta ekki til bóta.