140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:14]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Jú, ég skal svara hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni strax. Ég tel að þessar breytingartillögur séu til bóta og liður í því að sætta þau sjónarmið sem uppi voru meðal starfsstéttarinnar sem þetta snertir vissulega mest. Þær eru ágætisvitnisburður um að nefndarmenn í hv. menntamálanefnd leggja sig fram um að vinna með þennan málaflokk með þeim hætti að sem mestur sómi er að og að það góða starf á þessu sviði geti eflst og þróast til frekari afreka ef eitthvað er.

Varðandi þá tillögu hv. þm. Marðar Árnasonar sem hv. þingmaður nefndi er skilningur minn sá eins og kom fram í samtölum okkar hér í morgun um það efni að breytingartillaga hv. þm. Marðar Árnasonar sé tilraun til að lengja í þeim kostnaði sem af þessu kann að stafa án þess að hv. þm. Mörður Árnason tiltaki í breytingartillögunni hvaða forsendur eigi að leggja til grundvallar þeirri kostnaðardreifingu sem hann vill koma á, hversu langan tíma þetta megi dragast, í hvaða tilvikum o.s.frv. Mig langar í því sambandi að inna hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson eftir því sem hann getur svarað í sínu seinna andsvari hvort hann geti þá ekki verið sammála mér um að sú tillaga sem hv. þm. Mörður Árnason leggur fram sé (Forseti hringir.) í meginefni samhljóma þeim áherslum sem koma fram í 16. gr. í frumvarpstillögunni, (Forseti hringir.) þ.e. um að þetta lúti að útfærslu.