140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[12:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans á þessu nefndaráliti. Við búum á lítilli eyju og það er okkur Íslendingum gríðarlega mikilvægt að verja landið fyrir búfjársjúkdómum og gegn ólöglegum innflutningi á matvælum eða lifandi dýrum. Rétt eins og hv. þingmaður benti á í fyrra andsvari sínu bárust fregnir þess efnis í gær og fyrradag að búið væri að smygla merði til landsins (Gripið fram í.) sem er ástæða til að hafa áhyggjur af.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann telji að við göngum með þessu frumvarpi nægilega langt í þá átt að hindra að hingað berist sjúkdómar eða hlutir sem geta valdið hættu, þá að teknu tilliti til athugasemda Persónuverndar eins og kemur fram í nefndaráliti sem hv. þingmaður mælti fyrir.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að hafa það á hreinu að við göngum nægilega langt í þessa áttina því að það getur komið í bakið á okkur síðar ef svo er ekki.

Síðan fagna ég því að allir þingmenn nefndarinnar skuli vera á þessu máli og spyr hv. þingmann hvort það sé vottur um að við séum að fara að sjá kannski meiri samhug í þá áttina (Forseti hringir.) og samstöðu um að standa vörð um hreinleika íslenskra matvæla og íslenskrar náttúru. (Forseti hringir.) Er það ekki til marks um þá staðreynd að hér sé lítið um dýrasjúkdóma?