140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvort gengið sé nægilega langt til að tryggja matvælaöryggi, tryggja það að hingað til lands berist ekki smitaðar matvörur sem gætu haft afleiðingar bæði fyrir almenning og búfjárstofna okkar eins og ég nefndi áðan. Ég verð að svara þessari spurningu hv. þingmanns eins og ég væri framsóknarmaður, bæði já, já og nei, nei. Það er já í þeim skilningi að það er verið að ganga skrefinu lengra en núna er í þessum efnum. Matvælastofnun fær auknar heimildir frá því sem er í gildandi lögum. Það er verið að opna á rafrænan aðgang að farmskrárupplýsingum úr upplýsingakerfum tollyfirvalda. Að þessu leytinu má segja að verið sé að stíga skref í þá átt að hafa meiri heimildir fyrir Matvælastofnun til að fylgjast með sem hún hafði ekki áður.

Hins vegar er ljóst eftir yfirferð okkar yfir málið að það eru mjög miklar takmarkanir á þessum aðgangi miðað við það sem væri kannski það æskilegasta frá sjónarhóli matvælaöryggisins. Þessar upplýsingar eru ekki nægilega til staðar sundurgreindar í upplýsingakerfum tollyfirvalda á grundvelli farmskrárupplýsinga. Þess vegna var það niðurstaða okkar fyrir 2. umr. málsins að hafa þessar heimildir rýmri, ganga lengra í því að opna þær fyrir Matvælastofnun. Auðvitað hafa samt starfsmenn Matvælastofnunar sömu þagnarskyldu og starfsmenn tollstjóra, það gefur augaleið. Vegna ábendingar Persónuverndar treystum við okkur ekki til að ganga svona langt.

Ég kem kannski að því í síðara andsvari mínu hvort hér sé að skapast einhver samhugur um að tryggja matvælaöryggi. Við skulum vona það. Þingmenn allra flokka sem eiga sæti í atvinnuveganefnd skrifa upp á þetta. Það má segja að þetta feli vissulega í sér viðurkenningu á því að við þurfum að standa vaktina þegar kemur að þessum málum út af matvælaöryggi, annars vegar fyrir almenning og hins vegar líka, það sem ég tel skipta gríðarlega miklu máli, okkar viðkvæmu búfjárstofna.