140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[13:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort lögin muni þá einnig ná yfir aðföng til landbúnaðarframleiðslu, áburðar, grasfræja, kjarnfóðurs, hráefna til kjarnfóðurs og fleira. Það er gríðarlega mikilvægt.

Hv. þingmaður vitnar til þess að þetta sé ákveðnum takmörkunum háð og því spyr ég hvort nefndin hafi kynnt sér hvernig þessum málum er háttað erlendis. Ég vitna til að mynda til Nýja-Sjálands þar sem gilda gríðarlega strangar reglur um innflutning á matvælum, um innflutning á lifandi dýrum og öðru slíku. Sem dæmi má nefna að ef fólk smyglar hráu kjöti til Nýja-Sjálands eru við því sambærileg viðurlög og að smygla fíkniefnum. Það land verður seint talið aftarlega á merinni í viðskiptalegu eða félagslegu (Forseti hringir.) tilliti. Þar er sem sagt lögð gríðarleg áhersla á þetta og fylgst mjög vel með því. Kynnti nefndin sér eitthvað hvernig þessu (Forseti hringir.) er háttað í þessu landi og fleirum sem eru með sambærilegar reglur?