140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[13:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, lögum um aðför, lögum um meðferð einkamála og lögum um fjármálafyrirtæki. Fékk nefndin fjölmarga aðila á fund til sín og til umsagnar um málið.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild sýslumanna til að auglýsa nauðungarsölu með rafrænum hætti. Einnig er lagt til að lengja þann frest sem gerðarþoli, eða sá sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna nauðungarsölu, hefur til að höfða mál til innheimtu skaðabóta á grundvelli laga um nauðungarsölu úr þremur mánuðum í sex mánuði.

Einnig er lögð til sú breyting á lögum um nauðungarsölu að sýslumenn gæti þess af sjálfsdáðum að söluandvirði eignar verði ekki ráðstafað ef krafa er umdeild í ljósi hæstaréttardóma sem hafa gengið um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána.

Þetta er kjarninn í þessu máli, að koma til móts við þá sem eiga í málum sem enn er verið að leysa úr út af gengisdómunum.

Jafnframt felst í frumvarpinu breyting á ákvæðum laga um meðferð einkamála sem lúta að gjafsókn og miðar tillagan að því að auka möguleika almennings á gjafsókn. Sömuleiðis er lagt til að við þau lög bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að skuldarar, þ.e. einstaklingar, fái gjafsókn vegna dómsmála sem kunna að verða höfðuð í kjölfar samstarfs fjármálafyrirtækja á grundvelli tilvísaðrar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá mars 2012.

Þá er í 9. gr. lagt til að við lög um fjármálafyrirtæki bætist ákvæði til bráðabirgða í því skyni að tryggja að fjármálafyrirtæki fylgi tilmælum innanríkisráðuneytisins frá 28. júní 2011. Í þeim er áréttuð 78. gr. aðfararlaga um að þeim sem telur sér með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttar sem hann telur sig eiga og getur fært sönnur á þann rétt sinn með skriflegum sönnunargögnum sé heimilt að beina því til héraðsdómara að hlutur sé tekinn úr vörslu þess sem hlutinn hefur og afhentur þeim sem réttinn á. Því er lagt til að í ákvæði til bráðabirgða verði kveðið á um að fjármálafyrirtækjum, þar með talið þeim sem eru í slitameðferð, verði óheimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu með vörslusviptingu sé hún umdeild í ljósi hæstaréttardóma um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána. Gert er ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið geti lagt stjórnvaldssektir á þann sem brýtur gegn ákvæðinu.

Hér er einnig verið að tryggja rétt og stöðu þeirra sem hafa misst eigur sínar eða lent í því ferli vegna lána sem voru síðan dæmd ólögleg og enn er verið að greiða úr. Það skiptir mjög miklu máli að þetta nái fram að ganga.

Við umfjöllun um málið komu fram sjónarmið um tvenns konar viðbætur við frumvarpið. Var annars vegar um að ræða að við lög um gjaldþrotaskipti bættist ákvæði um að þrátt fyrir 129. gr. þeirra laga væri sú skylda lögð á skiptastjóra að gæta þess af sjálfsdáðum að söluvirði eignar yrði ekki ráðstafað til greiðslu umdeildrar kröfu í ljósi hæstaréttardómanna. Að baki búa sömu rök og búa að baki b-liðar 4. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur til breytingartillögu við frumvarpið í þessa veru.

Hins vegar voru lagðar til viðbætur við frumvarpið í þá veru að bætt yrði ákvæðum til bráðabirgða við lög um gjaldþrotaskipti og lög um nauðungarsölu sem mundu gilda til ársloka 2013. Í þeim fælist að unnt yrði að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu og gjaldþrotaskipta hafi fullnustuð krafa verið umdeild í ljósi hæstaréttardóma um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána að því skilyrði uppfylltu að uppboðskaupandi hafi verið eigandi hinnar umdeildu kröfu og væri enn eigandi andlags uppboðsins, einnig að til bráðabirgða yrði sú breyting gerð á lögum um meðferð einkamála að unnt yrði að krefjast endurupptöku gjaldþrotaúrskurðar leiði gerðarþoli líkur að því að greiðsluerfiðleika hans væri hægt að rekja til gengistryggðra lána. Framangreindar tillögur um heimild til að bera gildi nauðungarsölu og gjaldþrotaskipta undir héraðsdómara eru bundnar við þau tilvik að uppboðskaupandi hafi verið eigandi kröfu og væri enn eigandi þeirrar eignar sem fullnustuð var. Breyting af þessum toga kynni þó að raska stöðu annarra kröfuhafa. Fram kom á fundum nefndarinnar að það væri varhugavert að hrófla við fullnustugerðum sem væru þegar lokið og að lögfesting framangreindra heimilda sett fullnustukerfið í bið. Nefndin bar þessar breytingar jafnframt undir réttarfarsnefnd. Lagðist hún mjög eindregið gegn þeim og varaði við að þær yrðu lögfestar og taldi málið þarfnast mjög ítarlegri skoðunar út frá stjórnarskrárákvæðum um eignarrétt, afturvirkni laga og fleira.

Í umræðum um þetta komu fram tillögur sem umsagnaraðilar höfðu ekki tækifæri til að leggja fram ítarlegt álit á og því varð niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að skoðaður yrði grundvöllur fyrir lögfestingu heimilda af þessu tagi af því að það var ríkur vilji innan nefndarinnar til að ganga svo langt. En eftir mjög eindregið álit og nánast beiðni frá réttarfarsnefnd um að lögfesta þetta ekki nema skoða málið betur, taldi meiri hlutinn að sjálfsögðu ekki hægt að ganga fram hjá því. Telur meiri hlutinn mikilvægt að skoða þennan grundvöll og beinir því til innanríkisráðuneytisins að fara yfir málið með réttarfarsnefnd og fá úr því skorið hvort þetta standist stjórnarskrá, reglur um afturvirkni og annað slíkt. Ef það er álit hæstv. ráðherra, ráðuneytis og réttarfarsnefndar, annarra umsagnaraðila og samstarfsaðila um þetta mikilsverða og flókna mál að þetta geti staðist, gæti ráðuneytið haft svigrúm til að koma með breytingartillögur af þessu tagi fyrir þingið næsta haust. Það er engum greiði gerður að gera slíka breytingu ef hún yrði innan skamms dæmd af dómstólum landsins sem stjórnarskrárbrot út frá eignarrétti og afturvirkni ákvæða. Þá er betra að gæta varúðar og taka nokkra mánuði til að skoða málið núna í sumar og bregðast við þessu strax í upphafi þings í september.

Í athugasemdum við frumvarpið er fjallað um Félag sýslumanna. Meiri hlutinn bendir á að átt er við Sýslumannafélag Íslands. Leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Á eftir 9. gr. komi nýr kafli, V. kafli, Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti, nr. 21/ 1991, með síðari breytingum, með einni nýrri grein, svohljóðandi:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Skiptastjóri skal, við úthlutun skv. XXII. kafla, gæta þess af sjálfsdáðum að söluvirði eignar verði ekki ráðstafað til greiðslu kröfu ef hún er umdeild í ljósi hæstaréttardóma sem gengið hafa um lögmæti og endurreikning gengistryggðra lána.

2. Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga breytingu á lögum um nauðungarsölu, lögum um aðför, lögum um meðferð einkamála, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. (auglýsing nauðungarsölu, mál til heimtu bóta, gjafsókn, vörslusviptingar, úthlutun úr þrotabúi).

Það er álit nefndarinnar að mjög áríðandi sé að þetta nái fram að ganga áður en þingi verður slitið í vor eða sumar þar sem þetta er mikið réttlætismál fyrir þá einstaklinga sem eru í þeirri stöðu sem ég lýsti áðan þar sem deilt er um kröfu út af gengislánadómunum, og mikilvægt að þess sé gætt að söluandvirði eignar verði ekki ráðstafað o.s.frv.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir skrifar undir álitið með fyrirvara enda telur hún að leggja hefði átt til þær viðbætur sem reifaðar hafa verið og beint er til innanríkisráðuneytis að skoða.

Undir álitið rita auk mín, sem er framsögumaður málsins, hv. þingmenn Lúðvík Geirsson, Álfheiður Ingadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir og Margrét Tryggvadóttir með fyrirvara.