140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[13:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gjafsókn er eitt af grundvallaratriðum í réttarkerfi okkar, að fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum óháð fjárhag. Gjafsóknin er lögfest til að tryggja að fátækt fólk geti leitað réttar síns. Því miður eru viðmiðunarmörkin, upphæðirnar, mjög lág núna þannig að það er aðeins allra lægst launaða eða tekjuminnsta fólkið sem getur leitað réttar síns með þessum hætti.

Með 6. gr. þessa frumvarps er gerð grundvallarbreyting á þessari hugsun, vegna þess að nú á að vera hægt að leita réttar síns með gjafsókn í málum sem hafa verulega almenna þýðingu eða varða verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagsmuni, mál sem eru fordæmisgefandi. Það segir í skýringu á þessari grein að tillagan miði að því, svo ég vitni orðrétt til hennar, með leyfi forseta, „að auka möguleika almennings á gjafsókn óháð fjárhagsstöðu umsækjanda.“

Þarna er verið að gera grundvallarbreytingar á gjafsóknarlögunum. Ég tel að hún þurfi miklu meiri umræðu hér í þingsal áður en við lögfestum hana og vil mælast til þess að allsherjarnefnd taki þetta mál til skoðunar að nýju. Ég hef gjarnan viljað hækka viðmiðunarmörkin hvað gjafsókn áhrærir en bágur fjárhagur ríkissjóðs hefur torveldað það. Hér er verið að gera lagabreytingu sem opnar á aukið fjárstreymi úr ríkissjóði. Ef við ætlum að fara þessa leið verður þingið að sama skapi að tryggja fjármagn til þess að standa straum af kostnaði við þessar breytingar. (Gripið fram í: Ögmundur Jónasson af öllum mönnum.)