140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[13:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert sjálfsagðara en að skoða þetta milli umræðna og sjálfsagt að bregðast við öllum málefnalegum ábendingum. Nefndin lagði mikla vinnu í þetta og lagði sig fram eins og kostur var af því að hér voru lagðar til mjög margar breytingartillögur og mjög málefnalegar. Ein sú mikilsverðasta að okkar mati og sem gat klárlega staðist var tekin inn. Aðrar er ráðuneytinu falið að skoða. Hér er lagt til að gjafsóknin verði óháð fjárhagsstöðu. Það er sjálfsagt að meta kostnaðinn af því og hvort hægt sé að fara einhvern milliveg þar sem viðmiðunarmörkin eru sett við tiltekna upphæð, meðaltekjur eða eitthvað slíkt.

Það er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé að velta þessu fyrir sér út frá slíkum forsendum og hver viðmiðunarmörkin gætu þá verið. Ef við tökum þetta mál og ræðum milli umræðna þurfum við að hafa hraðar hendur og vinna hratt og vel og fá sjónarmið okkar færustu sérfræðinga. Auðvitað þarf að meta kostnaðinn og tryggja að réttlætinu verði fullnægt og því náð fram þótt gjafsókn verði ekki óháð fjárhagsstöðu. Væntanlega er hægt að finna einhver viðmiðunarmörk sem tryggja það sem ráðherra nefndi hér. Viðmiðunarmörkin hafa verið allt of lág og gjafsóknin bara nýst þeim allra tekjulægstu. Við viljum að sjálfsögðu mæta sjónarmiðum breiðari hóps og það væri gott að fá slíkar ábendingar og hugmyndir inn í umræðuna.