140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[13:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta önnur en þau að ekkert er sjálfsagðara og eðlilegra í þessu lagasetningarferli að taka umræðu um þetta. Hér eru miklir hagsmunir í húfi fyrir fjölda fólks og við viljum auðvitað að þetta verði sem allra best úr garði gert. Það er einfalt að kalla málið inn til nefndar á milli umræðna og fara yfir tiltekin skilgreind atriði eins og hér um ræðir. Við munum að sjálfsögðu verða við ábendingum frá ráðuneytinu og hæstv. ráðherra um málið og munum að sjálfsögðu kalla til ráðuneytið og aðra aðila til að fara yfir það með okkur. Ef það er niðurstaðan að meiri hlutinn vilji að gjafsókn sé ekki óháð tekjustöðu heldur bundin við einhver viðmiðunarmörk þarf að finna þau út. Ég ætla ekkert að kveða upp úr með það. Þetta er nefndarálitið eins og það liggur fyrir með þeim breytingum sem ég nefndi áðan. Við munum að sjálfsögðu skoða þetta atriði á milli umræðna.