140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

vinnustaðanámssjóður.

765. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Það er óhætt að segja að öll þau mál sem við ræðum hér í dag, og þau sem ég hef mælt fyrir frá allsherjar- og menntamálanefnd, eru mikilvæg og góð mál. Ég mæli þó fyrir þessu máli með sérstakri ánægju enda hef ég um árabil verið mikill áhugamaður um að efla starfsnám, verknám og iðnnám á Íslandi. Á síðustu árum hefur verið mikill og vaxandi stuðningur við eflingu starfsnáms í umræðum um menntamál hér landi. Einn umsagnaraðila hafði orð á því á fundi í allsherjar- og menntamálanefnd að um væri að ræða eitt stærsta skref sem stigið hefði verið í starfsnámsmálum á Íslandi um áratugaskeið. Það má taka undir það. Ég held að hér sé verið að skjóta mjög föstum stoðum undir starfsnámið, efla veg þess og vanda með mjög afgerandi hætti og sérstaklega er verið að byggja undir stöðu þeirra nemenda sem vilja stunda verk- eða iðnnám. Þetta nær að sjálfsögðu utan um allar hinar hefðbundnu iðngreinar og allar hinar stuttu námsbrautir sem við þekkjum úr skólunum; félagsliðar, skólaliðar, sjúkraliðar og allt það nám. Þegar svo árar og háttar til á vinnumarkaði eins og nú er hefur stundum reynst erfitt fyrir nemendur að fá samning og vinnuveitendur hafa af ýmsum ástæðum ekki treyst sér til að taka nemendur á samning. Þar með hafa margir nemendur — það hefur verið leitað til mín út af þessum málum í gegnum tíðina — hætt við að sækja sér tiltekið nám af því að þeir hafa ekki fengið samning. Þeir hafa farið að læra eitthvað annað eða farið að vinna. Þeir hafa þá ekki getað lært það sem þeir helst vildu læra af því að þeir fengu ekki samning hjá meistara.

Í frumvarpi um vinnustaðanámssjóð er komið verulega til móts við þennan vanda. Um leið og það bætir réttarstöðu skólanna kemur það mjög til móts við atvinnurekendur sem taka fólk í starfsþjálfun, vinnustaðanám eða á samning af því að ríkið kemur til móts við atvinnurekendur með framlögum.

Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót vinnustaðanámssjóði sem hafi það hlutverk að bæta stöðu starfsmenntunar og stuðla að eflingu vinnustaðanáms. Ætlunin er að ná því markmiði með því að auðvelda nemendum að ljúka starfsnámi og koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana af vinnustaðanáminu sem er líka mikið réttlætismál fyrir þau fyrirtæki sem vilja gjarnan fá fólk í þjálfun og starfsnám. Verið er að gera þeim þetta auðveldara og betur kleift að taka fleiri inn og hagsmunirnir fara algjörlega saman; skólanna, nemendanna, atvinnurekendanna. Með tilkomu sjóðsins er jafnframt gert ráð fyrir að gerðar verði meiri og skýrari kröfur um gæði náms, skipulag þess og framkvæmd.

Nefndin áréttar mikilvægi vinnustaðanámssjóðs og ég tek fram að við málið var eindreginn og órofa stuðningur í allsherjar- og menntamálanefnd þvert á alla flokka. Allir umsagnaraðilar og gestir voru ánægðir með að þetta mikilsverða mál væri að ganga fram, enda væri um að ræða eitt af stærstu skrefum sem stigin hefðu verið í íslensku menntakerfi um árabil, sérstaklega í því sem sneri að framhaldsskólamenntuninni. Með því að styrkja stoðir starfsnáms má ætla að brottfall framhaldsskólanema úr námi minnki verulega, enda aukast möguleikar nemenda á því að ljúka námi sínu á tilskildum tíma. Með frumvarpinu er skapaður fjárhagslegur hvati til að mæta kostnaði fyrirtækja og stofnana af nemendahaldi. Verði frumvarpið að lögum má því ætla að framboð starfsnámstækifæra fari vaxandi og nemendur hafi úr fjölbreyttari kostum í starfsnámi að velja.

Nefndin ræddi skipan stjórnar talsvert, en samkvæmt 3. gr. er gert ráð fyrir níu manna stjórn þar sem átta eru skipaðir samkvæmt tilnefningu ýmissa aðila, en formaður án tilnefningar. Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni á skipan stjórnarinnar þar sem aðilar töldu ýmist að ætti að fjölga í henni, rétta af hlutföll aðila eða fækka fulltrúum. Níu manna stjórn væri of þung í vöfum, þetta væri sjóður með skýr og skilgreind markmið og þyrfti ekki að manna svo vel. Á móti kom að mikilvægt var talið að allir þeir sem hlut ættu að máli, BSRB, ASÍ o.s.frv., kæmu þarna að af því það snerti auðvitað hagsmuni þeirra mjög. Áhersla var jafnframt lögð á það við nefndina að aðkoma nemenda að stjórninni væri tryggð og bendir nefndin því á að gert er ráð fyrir því að Samband íslenskra framhaldsskólanema tilnefni fulltrúa. Samkvæmt ákvæðinu sitja í stjórninni fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, framhaldsskóla, kennara, framhaldsskólanema og fjármálaráðuneytis. Í athugasemdum við greinina kemur fram að út frá jafnræðissjónarmiði sé gert er ráð fyrir að í stjórn sitji fulltrúar allra helstu aðila er hafa faglegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Nefndin telur brýnt að þessara sjónarmiða sé gætt og leggur því ekki til breytingar á ákvæðinu.

Í 4. gr. er kveðið á um að grundvöllur styrkveitinga úr vinnustaðanámssjóði sé að fyrir liggi samningur. Ekki er kveðið nánar á um það hvað eigi að vera í slíkum samningi heldur er gert ráð fyrir að um það gildi reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að tryggja þyrfti að framhaldsskóli viðkomandi væri aðili að samningi um vinnustaðanám. Skiptar skoðanir voru um hvort skólinn ætti að vera aðili að samningi eða ekki og sýndist sitt hverjum. Töldu mjög margir að svo ætti að vera. Í nefndinni var ríkur vilji til að skólinn kæmi að sem samningsaðili líka. Í gildandi reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun er gerður greinarmunur á námssamningi og starfsþjálfunarsamningi. Starfsþjálfunarsamningur er samningur milli skóla og fyrirtækis eða stofnunar um að veita nemanda tilskilda þjálfun og menntun en námssamningur er samningur milli nemanda og fyrirtækis eða stofnunar um vinnustaðanám eða starfsþjálfun á vinnustað. Skólar eru því ekki aðilar að slíkum samningum nú samkvæmt framangreindri skilgreiningu.

Í 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að framhaldsskólar hafi eftirlit með að nemendur þeirra leggi stund á vinnustaðanám sem áskilið er í námskrá og að gerðir séu viðeigandi náms- og starfsþjálfunarsamningar. Ekkert er því til fyrirstöðu að skólinn fari með þetta eftirlit þó að hann sé samningsaðili enda er þá samningsaðili að ganga úr skugga um að aðrir samningsaðilar fari eftir samningnum. Nefndin telur mikilvægt að skólar séu aðilar, eins og ég nefndi áðan, að námssamningi til að tryggja samfellu, nám frá upphafi til enda og gæði náms o.s.frv. Við vorum sannfærð um það eftir yfirferð í nefndinni að þetta væri bara til bóta, sérstaklega fyrir nemandann sjálfan en um leið fyrir skólann þar sem verið er að tryggja samfellu og námslok líka, ýtir undir að námslok séu á réttum tíma og aðhald, að nemendur flosni ekki upp úr námi. Að auki ýta þríhliða samningur undir góð tengsl milli nemenda, skóla og fyrirtækis eða stofnunar um vinnustaðanám. Gert er ráð fyrir að greitt sé úr sjóðnum beint til vinnustaðar sem samningurinn nær til og telur nefndin mikilvægt að skýrt sé að greiðslan fylgi nemandanum. Fyrirtæki móttaka þannig greiðslu á grundvelli samnings og þurfa því að uppfylla samningsskyldur sínar gagnvart nemandanum. Nefndin telur mikilvægt að auki að teknar verði upp svokallaðar ferilbækur í vinnustaðanámi. Skólinn búi þannig til ferilbók nemanda sem fylgir honum í náminu. Til að gæta samræmis telur nefndin eðlilegt að slíkar bækur byggi á stöðluðum ferilbókum sem mennta- og menningarmálaráðuneyti gerir fyrir einstakar greinar. Stytting vinnustaðanáms getur jafnframt skilað sér í lægri útgjöldum sjóðsins hverju sinni enda fylgir fjármagn nemandanum og greitt fyrir nemanda í samræmi við þann tíma sem námið stendur yfir.

Í framangreindri reglugerð um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað er heimild fyrir ráðherra til að fela skóla að annast umsýslu um gerð, staðfestingu og ógildingu námssamninga. Nefndin bendir á að verði breytingartillaga hennar samþykkt þarf að gera breytingu á þessu ákvæði reglugerðarinnar þar sem óeðlilegt er að einn samningsaðila sjái um staðfestingu og ógildingu námssamnings. Nefndin hvetur til þess að reglugerðarbreytingunni verði hraðað eins og kostur er og tækifærið verði nýtt til að sníða af annmarka við gildandi fyrirkomulag.

Auk þess að leggja til að framhaldsskólar verði aðilar að vinnusamningi um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað leggur nefndin til orðalagsbreytingu á 4. gr. Nefndin telur orðið „gildandi“ óþarft enda ljóst að um samningana mun ávallt gilda ákvæði reglugerðar sem í gildi er hverju sinni.

Kveðið er á um það í 5. gr. að framlög í sjóðinn séu ákveðin af Alþingi í fjárlögum hvers árs. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið hefur ríkisstjórnin þó ákveðið að greiddar verði 150 millj. kr. á ári úr ríkissjóði í vinnustaðanámssjóð árin 2012–2014. Nefndin bendir á að sú fjárhæð nægir eingöngu fyrir um 500 nemendur á ári miðað við að greiddar séu 20.000 kr. á viku í 15 vikur að meðaltali á nemanda. Hugsanlega þurfi því að endurmeta fjárþörf sjóðsins. Beinir nefndin þeim tilmælum til fjárlaganefndar að tryggja sjóðnum nægjanlegt fjármagn. Munum við að sjálfsögðu skoða það í fjárlagavinnunni sem nú stendur yfir. Í nefndarálitinu er þessi breytingartillaga lögð fram, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi breytingar verði á 1. mgr. 4. gr.:

a. Í stað orðsins „samningur“ í fyrri málslið komi: samningur milli nemanda, framhaldsskóla og fyrirtækis eða stofnunar um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað.

b. Orðið „gildandi“ í fyrri málslið falli brott.“

Hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir það rita auk mín hv. þingmenn Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Birgitta Jónsdóttir. Þakka ég þeim öllum fyrir mjög góða vinnu í nefndinni. Við náðum að vinna þetta hratt og örugglega til að þetta mikilsverða mál, um vinnustaðanámssjóð, um stóreflingu starfsnáms á Íslandi, nái fram að ganga áður en Alþingi fer heim í sumar.