140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[13:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir framsöguna. Ég hef áhuga á að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji rétt að gera þetta miklar breytingar á lögum um sparisjóðina þegar við bíðum núna eftir því — að vísu hefur verið óskað eftir aðeins lengri fresti — að fá niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina. Rannsóknarnefndin átti meðal annars að fara í gegnum forsögu sparisjóðanna, ekki bara í aðdraganda hrunsins heldur sögu sparisjóðanna, og þær breytingar sem hafa verið gerðar á lagaumhverfi sjóðanna. Sú skýrsla ætti vonandi að geta hjálpað okkur þingmönnum að taka betri ákvarðanir en við höfum gert hingað til um þetta sögulega og mikilvæga rekstrarform sem sparisjóðirnir eru að mínu mati.

Telur hv. þingmaður ekki að það hefði verið betra að bíða með svo miklar lagabreytingar varðandi sparisjóðina fram á haustið að minnsta kosti? Þing á að koma saman aftur 11. september og þá hefði verið hægt að leggja fram frumvarp sem byggðist á niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis.