140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hann hvort það hafi verið rætt í nefndinni hvað verður um hið göfuga fé sem er eigið fé sparisjóðanna umfram stofnfé, sérstaklega við hlutafélagavæðingu. Mér finnst það vera mjög lítið skýrt í frumvarpinu og ekkert frekar skýrt í nefndarálitinu. Þetta er fyrsta spurningin.

Þá vil ég spyrja hvort búið sé að koma í veg fyrir það hringferli peninga sem var í gangi fyrir hrun í stórum stíl og olli hruni sparisjóðanna og miklum og slæmum örlögum hjá því fólki sem setti peninga í að kaupa bæði stofnfé og hlutafé. Ferlið fólst í því að sparisjóðurinn lagði inn fé í einhverjum banka, bankinn lánaði Jóni Jónssyni til að kaupa stofnbréf eða hlutabréf í sparisjóðnum og Jón Jónsson keypti svo stofnbréf í sparisjóðnum þannig að peningurinn fór í hring en eigið fé sparisjóðsins óx við þetta. Þannig gátu þeir sýnt sífellt meira eigið fé og þessi hringrás peninga varð til þess að fjöldi einstaklinga skuldaði upphæðir sem eru einstaklingum yfirleitt ofviða að standa skil á þegar peningarnir síðan hverfa. Þetta olli miklum vanda. Ég ætla að spyrja hvort það hafi verið rætt í nefndinni að taka á þessum vanda og hvort þetta hafi verið lagað í vinnu nefndarinnar.