140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að það þarf að stoppa þessa hringferla. Það er reyndar verið að taka á því alþjóðlega með því að skilgreina hvað megi leggja fram sem eigið fé og þá út frá því hversu áhættusamt viðkomandi verðbréf er. Ég hlýddi líka nýlega á sérfræðing sem vinnur hjá matsfyrirtæki þar sem hann lagði einmitt fyrst og fremst mat á það hversu gott eigið fé banka í Evrópu væri. Það eru þreifingar í átt að því að reyna að safna upplýsingum um það hversu haldbært þetta eigið fé banka er. Það er örugglega ekki nóg. Það er yfirleitt þannig með fólk sem ætlar að svindla á lögum og reglugerðum að það er alltaf aðeins á undan þeim sem eiga að hafa eftirlit með því. Það þarf örugglega að gera meira, en það er spurning hvað hægt sé að gera. Sumir leggja til mjög róttækar breytingar á bankakerfinu og tala um að það eigi bara að taka peningaprentunarvaldið algjörlega af bönkum og flytja inn í seðlabankana. Þessa hugmynd hefur Frosti Sigurjónsson kynnt, hugmynd sem kom fram í kreppunni upp úr 1930. Það var sem sagt Fisher sem kom fram með hana. Ef bankar hefðu ekki lengur þetta peningaprentunarvald og (Forseti hringir.) gæti bara gefið út lán í samræmi við innstæður væri ekki jafnmikil áhætta af starfsemi þess.