140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru fastir liðir eins og venjulega. Við þingmenn stöndum núna í þeim sporum að geta ekki áttað okkur á því hvernig þingstörfum verður haldið áfram í dag, hvað þá allra næstu daga. Við sjáum þá dagskrá sem fyrir okkur hefur verið lögð sem er nokkurn veginn sú sama og á laugardaginn var þar sem var mælt fyrir allmörgum nefndarálitum.

Nú vil ég spyrja hæstv. forseta hvernig þingstörfum verður haldið áfram í dag, hvort reynt verði áfram að leiða fram eitthvert samkomulag um þinglok. Hjá okkur í stjórnarandstöðunni hefur komið fram fullur vilji til þess að reyna að ná samkomulagi um einstök mál, afgreiðslu þeirra og þar með lyktir þingsins. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta eftir því hvort von sé á því að þessum viðræðum verði haldið áfram og hvernig hæstv. forseti sjái fyrir sér þingstörfin í dag.