140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil koma hingað upp og hvetja hæstv. forseta til dáða í því að reyna að ná samkomulagi við þingflokka um þinglokin. En í ljósi orða hv. þm. Marðar Árnasonar sem sagði að það væri stjórnarandstaðan sem bæri ábyrgð á öllu þessu ástandi hér, langar mig að minna á að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Ég tel að meðan fólk hefur það hugarfar sem birtist í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar sé ljóst að við náum litlum árangri í því að ná saman um lyktir mála í þinginu.

Mig langar að öðru leyti að taka undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals. Maður gerði ráð fyrir því að hér yrðu hæstv. ráðherrar til svara í morgunsárið eins og aðra mánudaga. Ég geri þá ráð fyrir því að ef af sumarþingi verður, eins og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon talaði um í útvarpinu um helgina, verði ráðherrar hér að sjálfsögðu til að svara fyrirspurnum þingmanna.