140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa bent á mikilvægi þess að það sé skýrt hver dagskráin er fram undan á Alþingi til að þingmenn geti skipulagt störf sín og að sjálfsögðu allir sem starfa á þinginu, starfsmenn þingsins og aðrir. Ég mun leggja mitt af mörkum til að línur skýrist sem allra fyrst en ég vil líka taka undir með þeim sem segja að fyrst við erum hér á annað borð væri óvitlaust að hafa ráðherra til svara.

Það hefur til dæmis gerst síðustu daga að forseti Íslands hefur lýst því yfir að komi til þess að samið verði við Evrópusambandið muni hann ávallt senda málið til þjóðarinnar í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu sem verði endanleg. Þetta hlýtur að setja í ákveðið uppnám áform ríkisstjórnarinnar um hina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna væri mjög við hæfi að forusta ríkisstjórnarinnar mundi bregðast við þeim tíðindum sem borist hafa frá núverandi forseta, (Forseti hringir.) þeim sem virðist hafa forskot í kapphlaupinu um forsetaembættið á næsta kjörtímabili.