140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt í þeim samningaviðræðum sem hér eiga sér stað um þinglokin að allir hlutaðeigandi hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að vanda alla umgerð og allan málatilbúnað í kringum starfsumhverfi sjávarútvegsins. Það eru svo miklir hagsmunir undir. Mig langar, frú forseti, vegna þeirra viðræðna sem eiga sér stað, að vitna í ritgerð sem hagfræðingurinn Konráð Guðjónsson gerði um makrílveiðarnar. Þar færir hann rök fyrir því að vegna þess fyrirkomulags sem var búið að koma á hafi tapast hagnaður á árinu 2011 upp á 1,5 milljarða kr. Það skiptir miklu máli fyrir okkur í þessum samningaviðræðum að menn flýti sér ekki um of og þeir vandi sig. Fjármunirnir sem eru undir, möguleikarnir fyrir íslenska þjóð og hagsmunir íslenskrar þjóðar eru svo miklir (Forseti hringir.) að ef menn gera skekkju á einhverjum hlaupum núna þessa síðustu daga getur það kostað mikla fjármuni, eins og hagfræðingurinn bendir á í ritgerð sinni um makrílveiðarnar og fyrirkomulag þeirra.