140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[10:56]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil jafnframt fagna því að hér er verið að ræða um réttarbót eða neytendavernd sem mun bæta mjög stöðu fólks sem tók gengislán og margt hvert hefur átt á hættu að hjá því birtist vörslufyrirtæki og svipti það þeirri eign sem keypt var með ólöglegu gengisláni.

Ástæða þess að ég kem hingað upp eru áhyggjur mínar af þeirri þróun sem við sjáum birtast með samþykkt þessa frumvarps, þróun sem felst í því að réttindi sem eru nú þegar fyrir í íslenskri löggjöf þarf að staðfesta sérstaklega með lagabreytingum. Við virðumst með samþykkt þessa frumvarps vera á hraðferð í átt að amerískri löggjöf þar sem löggjöfin tíundar í smáatriðum hver séu réttindi og skyldur einstaklinga og með því að færa okkur í þá átt færumst við frá hinni norrænu löggjöf sem byggir á því að grundvallarréttindi eru sett í lög í trausti þess að einstaklingar nái samningum um deilumál sín fyrir utan dómstóla en ekki í dómstólum eins og í ameríska kerfinu. Við erum með öðrum orðum, virðulegi forseti, að færast meira og meira í átt til þess að einstaklingar fari fyrir dómstóla með öll sín ágreiningsmál. Þetta lagaákvæði, þar sem er tekið sérstaklega fram hver þessi almenna neytendavernd einstaklinga varðandi vörslusviptingarrétt er, er því miður eitt dæmið um það.

Ég spyr hv. þm. Birki Jón Jónsson hvort hann sé ekki sammála mér um það (Forseti hringir.) að í raun og veru sé óþarfi að samþykkja þessa lagabreytingu.