140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:11]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, eitthvað kannast ég við að hafa heyrt um það frumvarp. Ég var einn af meðflutningsmönnum Sigurðar Kára Kristjánssonar þannig að ég kannast við það.

Bent var á það í nefndinni að haustið 2010 var það frumvarp lagt fyrir Alþingi og þá var jafnframt bent á það í nefndinni að ef það frumvarp hefði verið samþykkt værum við í þó nokkuð annarri stöðu en við erum í í dag. Þá væri búið að úrskurða um mun fleiri deilumál sem geta haft mikið fordæmisgildi og mjög sennilega værum við komin lengra í þessari úrvinnslu skulda eftir hrunið

Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal veit þá var því hafnað af stjórnarflokkunum og hæstv. dómsmálaráðherra þess tíma taldi enga ástæðu til að samþykkja frumvarpið, það væri alger óþarfi — ég tel að það hafi verið mikil mistök hjá henni og stjórnarliðum að láta það ekki ná fram að ganga, enda sjáum við núna að tilraunir hafa verið uppi með að koma fram með einhvers konar frumvarp sem leiðir til flýtimeðferðar mála nú tveim árum eftir að því var hafnað að þörf væri fyrir slíkt frumvarp, einmitt fyrir þetta frumvarp Sigurðar Kára Kristjánssonar og meðflutningsmanna hans.