140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en frumvarpið sem við ræðum í dag er einmitt til lausnar á óbilgjarnri afstöðu bæði kröfuhafa og skuldara. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns þá eru margir skuldarar sem ætla sér hugsanlega ekki að greiða, fara í felur og ekki er hægt að ná í þá. Var rætt í nefndinni hvað gerist þá? Hér stendur að þá þurfi að fara í vörslusviptingu sem er heilmikið dómsmál. Var rætt um það hvað gerist ef ekki næst í skuldarann? Hefði ekki verið eðlilegra að setja einhver tímamörk, gefa mönnum kannski tvo mánuði til að finna skuldarann því að oft er það þannig að hann hreinlega finnst ekki. Hann er með lögheimili einhvers staðar, býr ekki þar og það næst aldrei í hann. Þetta er eitt vandamálið.

Hitt vandamálið er að sumir kröfuhafar fara offari í því að taka bíla og hafa ekkert fyrir því, ætla ekki einu sinni að hringja á dyrabjöllunni, eru bara farnir á brott með bílinn. Maður hefur heyrt slíkar sögur. Var það rætt í nefndinni hvort setja hefði mátt inn ákvæði í greinina sem hér er verið að breyta um að mönnum sé gefinn sanngjarn tími í sannanlega leit að skuldaranum og ef hann finnst ekki sannanlega þá sé litið á það sem samþykki?